144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hlýt að byrja á að fagna yfirlýsingu menntamálaráðherra að hann setji á stofn nefnd til þess að þýða þann texta sem frá fjármálaráðuneytinu kemur, á köflum a.m.k.

Ég undrast nokkuð tilvísanir hæstv. ráðherra til þess fyrirkomulags sem nú er, að það sé sérstök réttlæting fyrir því að þar eigi stjórnlyndi áfram að vera úr hófi fram. Ég held að það sé engum blöðum um það að fletta, hæstv. ráðherra, að við höfum gengið mjög langt í þessum efnum. Ég held að það sýni það kannski hvað best að við Íslendingar, 0,3 milljón manna þjóð, kusum að hafa alveg sérstaka ríkisstofnun um örnefni. Hún var sérstaklega klofin út úr Þjóðminjasafninu ef ég man rétt og gerð að sjálfstæðri ríkisstofnun til þess að halda utan um þennan mikilvæga þátt. Að einhverju leyti á þetta auðvitað rætur að rekja í sjálfstæðisbaráttu okkar og þá miklu áherslu sem var á nafna- og mannanafnahefð í landinu og mikla formfestu í kringum þá hluti.

Ég held þó að þau sjónarmið séu kannski ekki jafn mikið í deiglunni núna á 21. öldinni og var þá og var kannski brýnt á sínum tíma. Ég hlýt að spyrja ráðherrann að því hvort honum finnist það ekki eiga vera hverju sveitarfélagi í sjálfs vald sett hvað götur og hverfi í því sveitarfélagi heita, hvað sveitarfélagið sjálft heitir, og þeim eigi að vera í sjálfsvald sett hvort þau kjósa að leita sér ráðgjafar í þeim efnum og hvaða ráðgjafa þá, og enn fremur hvort það sé nokkur réttlæting fyrir þessari skipan mála að það sé enn þá verra í gildandi löggjöf.