144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar fyrra ástand taldi ég rétt að rifja upp þá stöðu sem uppi er núna, það fyrirkomulag sem gildir um örnefnanefnd og verkefni hennar vegna þess að mér fannst nokkuð þannig talað eins og hér væri um nýmæli að ræða og við værum að hverfa frá fyrirkomulagi sem hafði átt að vera hér um aldaraðir, þetta væri allt saman eitthvert sjálfsprottið fyrirkomulag þar sem kostir nafnanna fengju að njóta sín í samkeppni sín á milli og ofan á yrði það nafn sem best þætti. Það fyrirkomulag er raunverulega ekki til staðar núna. Við höfum búið við fyrirkomulag sem er að mínu mati sennilega óþarflega flókið. Það fyrirkomulag sem lagt er upp með hér er til einföldunar.

Ef hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að hægt sé að einfalda þetta enn frekar þá mun ég að sjálfsögðu ekki setja mig á móti því. En í örnefnunum er fólginn gríðarlegur menningararfur. Saga þessarar þjóðar markast af örnefnum. Þau skipta miklu máli fyrir okkur og varðveisla þeirra og utanumhald er mikið atriði. Þegar kemur að því að breyta til dæmis bæjarheitum eða öðru slíku er ekkert óeðlilegt við að ekki sé hægt að gera það bara sisvona og án þess að færð séu fyrir því rök og að mínu mati að örnefnanefndin komi þar að. Þar með er ekki sagt að ekki sé hægt að gera það og gert er ráð fyrir því í lögunum að menn geti t.d. skipt um bæjarheiti, nöfn á götum og öðru slíku. En af því hér er um að ræða menningarverðmæti þá held ég að ákveðin íhaldssemi sé skynsamleg. Ég er í hópi þeirra sem er nokkuð (Forseti hringir.) íhaldssamur í þessum málum. Það getur vel farið saman, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) og gerir það reyndar oft, ákveðin íhaldssemi og frjálslyndi. (Forseti hringir.) Ég held reyndar að það sé best.