144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[11:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það blasir við og er öllum augljóst að deilurnar um virkjun og vernd eru einhverjar þær erfiðustu sem við glímum við í þessu samfélagi. Þess vegna er svo mikilvægt að við stöndum öll föst á því að það var ákveðið skipulag í lögum um það hvernig við ætlum að leiða til lykta þessi deilumál. Ferillinn er í lögum. Þegar tillögu verkefnisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili var breytt var það gert í samræmi við þessi lög. Það var gert þannig. Nú er verið að brjóta lög. Það er ekki verið að fara eftir þessum lögum og það er mjög alvarlegt því að alveg burt séð frá því hvaða skoðanir við höfum á því hvort það eigi að virkja meira eða vernda meira — ég tel að eigi að vernda meira — verðum við að halda okkur við þetta samkomulag, þessa sátt um ferilinn, annars fer allt upp í loft í þessu mikla deilumáli.

Ég verð að biðla til forsætisnefndar um að hún verði málsvari laganna í þessu máli, úrskurði á grundvelli (Forseti hringir.) laganna sem fyrir eru. Það eru tveir lagabálkar sem þarf að skoða, þingsköpin og lögin um rammaáætlun.