144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

náttúrupassi og gistináttagjald.

[11:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin svo langt sem þau ná. Ég hélt hins vegar ekki að það væri álit Sjálfstæðisflokksins að það væri eitthvert matsatriði hjá hæstv. ráðherra um kosti og galla hvaða skattheimta ætti að vera af atvinnugreininni. Ég skildi það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn legði áherslu á að skattar á atvinnugreinar væru lagðar á í samráði við atvinnugreinina. Auðvitað eru ekki öll fyrirtæki í greininni sátt við einhverja eina útfærslu, skárra væri það nú, en það er ljóst að meiri hluti stjórnarinnar í atvinnugreininni styður þessa leið. Við það bætist síðan sú leið sem þau leggja til, gistináttaskatturinn. Það þýðir að það verður engin aukin flækja í gjaldtöku- og skattkerfinu frá því sem nú er. Ég hélt að það væri höfuðáhersla af hálfu ráðherrans og flokks hennar að flækja ekki skattkerfið frá því sem nú er. Ég skil að hæstv. ráðherra hafi verið á öðrum slóðum þegar afstaða greinarinnar lá ekki fyrir, en ég spyr: Nú þegar afstaða greinarinnar liggur fyrir, (Forseti hringir.) vill hæstv. ráðherra ekki taka nýja ákvörðun og halda sig við einfalt skattkerfi í samræmi við vilja meiri hlutans í atvinnugreininni sjálfri?