144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

gjaldeyrishöft.

[14:24]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég fagna því og tel reyndar afar mikilvægt að við fáum tækifæri til að draga fram mikilvægustu þættina í þessu brýna verkefni, í þessu stóra og mikla hagsmunamáli þjóðarinnar.

Já, markmiðin eru alveg skýr; að koma á frjálsu flæði fjármagns en um leið að verja stöðugleikann. Í því felst auðvitað sú samstaða sem er svo afar mikilvæg og ég finn í máli hv. þingmanna hingað til að samhljómur er með.

Ég hef hins vegar ekki, eins og fram kom hjá hv. málshefjanda, upplifað neitt hringl á þessari vinnu, en það eru auðvitað mjög margir aðilar sem hafa með málið að gera og margt sem þarf að fara saman eins og hæstv. fjármálaráðherra fór mjög vel yfir í sinni ræðu. Ég hef þvert á móti upplifað það að ríkisstjórnin hafi unnið skipulega að lausn þessarar vinnu með aðkomu færustu sérfræðinga og ráðgjafa, innlendra og erlendra, og hingað til hafa verið tekin markviss fagleg skref allt frá því hæstv. forsætisráðherra skipaði ráðgjafarhóp um losun hafta í nóvember 2013.

Eins og ég sagði fór hæstv. fjármálaráðherra í ræðu sinni vel yfir þetta ferli og um samfelluna í þeirri vinnu og samráðið við þingflokka, sem ég tek undir að er afar mikilvægt í næstu skrefum sem tekin verða. En hingað til hafa leiðtogar ríkisstjórnarinnar talað af varfærni og ríkisstjórnin tekið yfirveguð og markviss skref í átt að afnámi hafta sem er það mikilvægasta fyrir þjóðina alla.