144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

gjaldeyrishöft.

[14:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mér finnst hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson spila þetta mjög vel. Hann gerir það faglega, hann gerir það af yfirvegun, hann festir sig ekki í því að við ættum bara einhvern veginn að fara með þetta. Nei. Þetta verður bara gert ef það er innan ramma þess sem hv. þm. Árni Páll Árnason segir, árangur við afnám hafta en þó, eins og hæstv. fjármálaráðherra nefnir, innan ramma stöðugleika. Þessi stöðugleikarammi þýðir að það er bara hægt að taka ákveðið mikið af peningum úr landi. Ef ekki er hægt að hoppa í gegnum þann hring verður þetta ekki klárað. Hæstv. fjármálaráðherra stendur mjög fast á þeim stað, þetta er samningaferli, óbeint samningaferli, þetta er ákveðinn pókerleikur sem er í gangi. Að sjálfsögðu vilja kröfuhafarnir taka sem mest úr landi en fjármálaráðherra hefur staðið fast á sínu, það verður ekki gert nema innan ramma stöðugleika, það er mjög mikilvægt.

Síðan þurfum við líka að horfa til þess að 60 milljarðar eiga eftir að fara í kosningaloforð Framsóknarflokksins sem á að taka út úr þessu þrotabúi í gegnum skatta. Þetta á eftir að gera á næstu þrem árum. Það skapar að sjálfsögðu ákveðið vandamál við þetta ferli. Ef það á að klára þetta uppgjör á búunum verður einhvern veginn að ná þessum peningum inn til að geta deilt þeim út til landsmanna. Að sjálfsögðu veldur það ákveðnum óþægindum í öllu þessu ferli. Ef það er rétt, sem hv. þm. Árni Páll Árnason segir, að þetta kosti 80 milljarða á ári í töpuðum gjaldeyristekjum, eru það 80 milljarðar sem tapast. Hvað tefst ferlið mikið út af kosningaloforði Framsóknarflokksins? Það er eitthvað sem við ættum að horfa til ef það er verið að tapa 80 milljörðum á ári í gjaldeyristekjum. Svona loforð kosta og þetta hefur klárlega áhrif á afnámsferlið, en (Forseti hringir.) það er mjög gott að hæstv. fjármálaráðherra sé í faglegu ferli að kortleggja allt ferlið(Forseti hringir.) og samningsstöðu og stöðu ríkisins gagnvart því að vera ekki lögsótt o.s.frv. (Forseti hringir.) og standa fast á því að þessi höft verði ekki afnumin nema innan ramma stöðugleika.