144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Stutta svarið er: Nei. Ég nefnilega tel að það eigi að lögfesta aðsetur stofnana af því að stofnanir ríkisins eru mikilvægar einingar í samfélaginu. Þær hafa ákveðið hlutverk. Það þarf að ríkja stjórnfesta varðandi þessar stofnanir og það er lágmarkskrafa að ákvörðun um staðsetningu þeirra sé rædd á Alþingi.

Ég held að stofnanir séu mikið á höfuðborgarsvæðinu því að hér er hjarta stjórnsýslunnar. Vegna nálægðar fagþekkingar og ýmiss eru þær hér. Síðan erum við með stofnanir á öðrum stöðum og það geta verið mjög gild og góð rök fyrir því að hafa stofnanir annars staðar. En þegar verið er að leita eingöngu með byggðasjónarmið að leiðarljósi legg ég til að það verði byrjað á að hætta við að skera niður þær stofnanir sem nú þegar eru úti á landi, hafa mikilvæga virkni í samfélagi sínu og gegna veigamiklu hlutverki.

Af því að þetta vill oft fara í einhverja byggðaumræðu, sem er bagalegt því að við eigum að vera í byggðaumræðu á öðrum forsendum, ég er mjög hlynnt henni, vil ég benda á að hlutfall opinberra starfa er mest á annars vegar höfuðborgarsvæðinu og hins vegar Norðurlandi vestra. Þetta hlutfall hefur lækkað milli áranna 2007 og 2011 en hækkað á ýmsum öðrum stöðum á landinu. Þetta snýst um hlutverk stofnananna og hvernig þær þjóna samfélagi sínu sem best. Þar eigum við að vera (Forseti hringir.) með meginfókusinn.