144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:41]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda hér aðeins áfram með það sem ég var að ræða áðan, en ég var komin að 6. gr., og spurði um þá nefnd sem rætt er um í athugasemdum við greinina sem er að skoða stofnanakerfi ríkisins, hvaða stjórnsýslunefndir eigi rétt á sér og hverjar ekki. Ég rifja þetta aðeins upp af því ég óska eftir því að hæstv. ráðherra svari því þegar hann dregur vonandi saman umræðuna á eftir.

Mér finnst það áhugaverður punktur í athugasemdum við 6. gr. þegar talað er um það mannauðstap sem fylgi því þegar stjórnsýsluverkefnum og úrskurðarvaldi er útvistað frá ráðuneytum. Þar er vitnað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem sagt er að ráðuneytin hafi verið svo lítil mörg hver að þau hafi ekki haft burði til að takast á við flóknari stjórnsýsluverkefni og annað því um líkt. En síðan er það fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar að skipta upp ráðuneytum og minnka þau, þannig að hér er verið að tala þvert ofan í þetta. Mér finnst menn eiginlega ekki vera samkvæmir sjálfum sér í því hvað þeir framkvæma annars vegar og leggja síðan til hér hins vegar, en hér er nefnt að möguleikar til sérhæfingar innan fámennra ráðuneyta séu litlir og það séu rökin fyrir því að sameina stofnanir ráðuneytum. Menn hefðu þá kannski betur haft ráðuneytin áfram stór og til þess bær að byggja upp góða sérþekkingu.

Mig langaði líka til þess að fara aðeins í restina á athugasemdunum við 6. gr., þar sem talað er um að þetta leiði af sér að hægt sé að tryggja yfirmönnum sambærilegar heimildir til töku ákvarðana fyrir hönd ráðherra og forstöðumenn stofnana hafa nú í eigin nafni. Mér finnst hér vera svolítið farið út í embættisvæðingu.

Ég tek undir það sem hér hefur verið rætt um 7. gr., um flutning verkefna og annað því um líkt milli ráðuneyta, að það sé ekki gott að vera að hræra mikið í því. Þær breytingar sem urðu á síðasta ári hafa leitt það í ljós að ekki á að fara eftir áhuga eða geðþótta ráðherra hverju sinni.

Mikið hefur verið rætt um 8. gr., og þar sem ég hef ekki langan tíma langar mig til þess að segja að mér finnst eitt af því sem er þó jákvætt þar er að ráðuneyti fjármála ætlar að reyna að kynna siðareglur öðrum ríkisstofnunum en ráðuneytum, þó að ekki sé búið að framkvæma það heldur sé það í athugun. Það er auðvitað mjög þarft. Þar er rætt um að gefin verði út handbók til að kynna reglurnar. Það er þó mjög sérstakt að það eigi að vera í höndum eins ráðherra, eins og hér var nefnt áðan, að sjá alfarið um að meta hvort farið sé eftir siðareglum eða ekki.

Síðan er sagt í athugasemdum neðarlega á bls. 11, með leyfi forseta, að „athugandi væri til dæmis að móta nánari reglur um áhrif hagsmunaaðila á stjórnsýsluna, t.d. við undirbúning lagasetningar“. — Það er sem sagt athugandi. Í framhaldinu er svo talað um að þessu hlutverki verði betur sinnt innan ráðuneytis, en þó verði haft samráð við einhverja aðila. Mér finnst enginn rökstuðningur vera fyrir því að þessu sé betur fyrir komið svona en með þeim hætti sem það er í dag og get ekki tekið undir það sem hér stendur að það sé til þess að efla fagleg vinnubrögð og auka traust á stjórnsýslunni að einhver einn ráðherra taki það að sér, hver svo sem hann er hverju sinni. Það dugar ekki til að óskað sé eftir tillögum frá Siðfræðistofnun eða einhverjum slíkum aðilum, ég tel betra að hafa fyrirkomulagið í þeirri armslengd og faglegheitum sem það er í dag.

Varðandi 10. gr., sem ég fór aðeins í áðan, og það sem snertir skráningu upplýsinga vil ég ítreka að mér finnst eðlilegt að það sé ekki ítarlegri skráning gagnvart þriðja aðila innan stjórnsýslunnar heldur en á milli stjórnsýslunnar sjálfrar eins og hefur komið fram hér og rætt varðandi lekamálið.

Mig langar í lokin að ræða um flutning starfsmanna. Ég tel að það sé gott að fólk geti flust á milli starfa innan Stjórnarráðsins, en ég tek undir orð og athugasemdir BHM; þeir geta ekki stutt það að störf verði ekki auglýst þegar þau losna í tilteknum opinberum stofnunum og hægt sé að ráða í störf án auglýsingar.

Að lokum, virðulegi forseti, langar mig til (Forseti hringir.) að segja að ekki er (Forseti hringir.) gert ráð fyrir því að draga úr fjölda (Forseti hringir.) lausra starfa heldur störfum (Forseti hringir.) sem fer fækkandi og í því felst kannski sú (Forseti hringir.) yfirlýsing að minnka kerfið.