144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Undanfarið höfum við fengið margar fregnir úr fjölmiðlum af þolendum heimilisofbeldis og eins hefndarkláms. Í þinginu liggur fyrir frumvarp um hið síðarnefnda frá þingflokki Bjartrar framtíðar. Ég vona að við getum komið því að sem fyrst og tek undir orð hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur um að hraða þurfi þessum þingmannamálum. Þetta málefni er brýnt og nauðsynlegt er að færa þann nýja veruleika sem okkur er að birtast undir lög og reglur til þess að vernda þolendur kynferðisofbeldis.

Herra forseti. Ég vil að þessu sinni beina athygli þingsins að fréttum sem okkur berast um það hvernig nálgunarbann og sú réttarvernd sem það úrræði á að veita virðist ekki vernda þolendur heimilisofbeldis sem skyldi. Það var í fréttum Stöðvar 2 fyrir skömmu sem Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði að nýlegir úrskurðir Hæstaréttar um nálgunarbönn vegna heimilisofbeldis stönguðust á við þann skilning laganna sem lögreglan hefur. Í tilteknu máli sem nú er mikið í umræðunni felldi Hæstiréttur úr gildi nálgunarbann lögreglu á ofbeldismanninn þótt rökstuddur grunur hafi verið um líkamlegt ofbeldi og hann hafi játað að hafa sent vinnufélögum konunnar kynlífsmyndband og nektarmyndir af henni.

Í ljósi orða lögreglustjórans og því að ljóst þykir að hér er ekki um einstakt tilvik að ræða þarf Alþingi að skoða hvort lögin nái ekki þeim tilgangi sem þeim er ætlað. Ef það er niðurstaðan þurfum við að gera breytingar og þessi mál þurfa að fara í forgang, herra forseti. Við getum ekki boðið konum og börnum þessa lands upp á að þurfa að þola heimilisofbeldi vegna þess að við erum of svifasein eða erum að gera eitthvað annað. Það á ekkert annað að ganga fyrir í störfum okkar á Alþingi en að vernda fólk gegn þess konar glæpum.