144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[12:25]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna þetta atriði vegna þess að í 15 mínútna ræðu minni komst ég ekki yfir í umsögn fjármálaráðuneytisins um þetta atriði. Gera má ýmsar athugasemdir við það, þar á meðal þessa: Þar kemur fram að kostnaðurinn sé 92,1 millj. kr. við að koma þessu kerfi á, þar af fara 60 millj. kr. til kynningar og markaðssetningar og svo er talað um rekstrarkostnað eftir það. Talað er um 40 millj. kr. og vegur þar þyngst eitt starf hjá Ferðamálastofu.

Svar mitt við spurningu hv. þingmanns um þetta atriði er að það fær líka algjöra falleinkunn í mínum huga. Kostnaðarumsögnin og náttúrupassaverðirnir sem eiga að vera einhvers staðar um landið — það er ekkert fjallað um það hér, það er ekkert fjallað um þann kostnað. Við getum rétt ímyndað okkur ef nokkur skemmtiferðaskip kæmu í höfn í Reykjavík og tíu, tuttugu rútur renndu með fólkið austur að Gullfossi. Hvernig ætti að haga eftirliti þar? Á þar að vera einhver merktur vörður í löggubúningi eða einhverju álíka sem tékkar á því hvort menn séu með náttúrupassa? Það er bara illframkvæmanlegt, virðulegi forseti.

Þess vegna segi ég að gistináttagjaldið er einfaldasta leiðin. Síðasta ríkisstjórn setti það á og Alþingi samþykkti það, ég man nú ekki hvort það var samhljóða eða ekki, vafalaust hefur það ekki verið samhljóða þegar ég horfi á ákveðinn ráðherra, þeir voru nú oft ekki sammála, en það er bara útfærsla sem við höfum gert hér. Ég greindi frá hvernig fyrirkomulagið væri í ýmsum borgum í Evrópu sem eru með gistináttagjald og hvernig framkvæmdin væri á því. Gistináttagjaldið er einfaldasta leiðin og sú ódýrasta.

Ferðamannastaðir og þeir sem selja gistingu borga alls konar gjöld til ríkisins fyrir ýmiss konar umsýslu. Það er bara hluti af því samkomulagi sem þarf að vera fyrir hendi, að seljendur gistingar rukka þetta gjald sem fer í sjóð (Forseti hringir.) sem hefur gott og göfugt markmið sem við skulum ekki gleyma að á að vera aðalatriði hér.