144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[13:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði með athygli á það sem hv. ræðumaður fór yfir varðandi mismunandi leiðir í gjaldtöku eða tekjuöflun í þessum efnum, komugjöld, gistináttagjöld eða aðra slíka gjaldstofna, einnig var nefnd nýsjálenska leiðin. Eins og ég nálgast þetta sýnist mér vera einn grundvallarmunur á eiginlega öllum gjaldtökuhugmyndum sem ég hef kynnst í gegnum pólitísk störf eða sem ferðamaður og þessum íslenska reisupassa. Grundvallarmunurinn liggur í því að hann er innheimtur gagnvart einstaklingum, andlagið er bara hinn einstaki ferðamaður. Í nánast í öllum öðrum tilvikum sem ég þekki er um að ræða einhvers konar innheimtu sem er einföld í sniðum og fer í gegnum rekstraraðila, fer í gegnum lögaðila eða er greidd beint af lögaðilum eins og í nýsjálenska tilvikinu þar sem eru þeir rekstraraðilar, fyrirtæki og félög sem nýta sér náttúruna sem eru skráð inn og greiða gjöldin þar. Sama gildir til dæmis um komugjöld sem eru rukkuð í gegnum farseðla eða gistináttagjald sem er rukkað á hóteli, það er í gegnum lögaðila sem er starfandi í atvinnugreininni sem innheimtan á sér stað.

Ég vil spyrja hv. þingmann af því að hann hefur nú trítlað stundum á fjöll með sinn bakpoka bæði innan lands og utan og hefur víða farið: Þekkir hann þess einhver dæmi að menn hafi farið út í það að búa sér til allsherjargjaldstofn fyrir atvinnugreinina með því að láta gjaldandlagið vera hinn einstaka ferðamann eða þann sem ferðast um landið til að skoða? Ég man í fljótu bragði eftir á öllum mínum þvælingi aðeins einu dæmi sem gæti kallast örlítið hliðstætt og það er gjald sem maður þarf að greiða ef gengið er um Cinque Terre-fjöllin við strönd Miðjarðarhafsins. Það er einfaldlega vegna þess að göngustígarnir þar afkasta ekki nema takmörkuðum fjölda fólks og þess vegna er í og með höfð þar (Forseti hringir.) ákveðin gjaldtaka. Það er náttúrlega bara til að ganga á þeim afmörkuðu göngustígum. (Forseti hringir.) Þetta er í eina skiptið á mínum ferli sem ég kannast við (Forseti hringir.) að hafa þurft að greiða gjald þar sem andlagið var þetta.