144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:33]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, vissulega finnst mér alveg koma til greina að alls kyns afþreying í ferðaþjónustu, flutningar og skutl inn á jökla, ferjanir yfir ár og ýmislegt sem varðar ferðaþjónustuna verði virðisaukaskattsskylt og önnur afþreying. Mér finnst það alla vega leið sem væri nær að ræða í þessu samhengi en þennan náttúrupassa. Mér finnst líka að komugjald gæti komið til greina vegna þess að þá eru þeir a.m.k. undanskildir sem nú þegar greiða skatta og skyldur í íslenskan samfélagssjóð.

Aðalatriðið er náttúrlega, eins og ég sagði hér áðan, að mér finnst allar aðrar leiðir en þessi vera það sem við ættum að horfa til. Framtíðarmúsíkin í þessu ætti að vera sú að horfa heildstætt á alla nýtingu náttúruauðlinda og þar á meðal þá sem við köllum ferðaþjónustu.