144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:34]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta svar. Mig langar einmitt að velta því upp að það er í rauninni verið að búa til nýtt kerfi fyrir 1,5 milljarða í áætlaðri veltu. Ég held að það sé ekki góður kostur að leggja af stað með nýtt kerfi fyrir svo lágan tekjustofn.

Mig langaði aðeins að spyrja þingmanninn um komugjöld sem hún nefndi af því að mér finnst þau hafa verið skrifuð út af borðinu vegna þess að þá færi innanlandsflugið á hliðina. Nú veit ég ekki hvort það er fær leið en ég held að því hafi ekki verið velt upp hér í umræðunni, þó að ég þori ekki að fara með það, hvort hægt sé að setja einhverjar lengdartakmarkanir á flug, þ.e. ef flogið sé X langt þá leggist á gjald. Þar af leiðandi gæti innanlandsflugið sloppið. Svo er auðvitað líka spurning: Getum við skilgreint innanlandsflugið sem almenningssamgöngur og er það þá undanþegið? Ráðherrann hristir höfuðið. Ég er alla vega ekki sannfærð. Mér finnst hún ekki hafa fært fyrir því nein rök innan þingsins að svo sé, annað en bara: Þetta er ekki hægt. Það er ekkert meira um það rætt.

Annað sem mig langar að koma inn á er skilgreiningin á ferðamannastöðum. Hér var vitnað í frumvarp sem er líka á dagskrá í dag þar sem ferðamannastaður er skilgreindur. Ég spyr hv. þingmann hvort hún taki undir það með mér að þar komi ekki heldur nægilega skýrt fram hvað í því felst að skilgreina stað sem hefur aðdráttarafl fyrir ferðamenn vegna náttúru hans og sögu. Hér er tekið dæmi af sveitarfélaginu Hornafirði, að ef þar yrðu skilgreindir einhverjir ákveðnir ferðamannastaðir þá væri allt sveitarfélagið ferðamannastaður — og hvað? Mér dettur þá í hug ef maður kemur í sveitarfélag og þar er eitthvert ákveðið svæði (Forseti hringir.) sem mann langar að sjá, þarf maður þá að borga tiltekna fjárhæð (Forseti hringir.) áður en maður fer inn í sveitarfélagið? Það er opnað á allt.