144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Spurt er hvort innheimta eigi frekar af einstaklingum. Þannig er að þessi viðskipti, ferðamennskan, byggjast á því að selja persónum þjónustu. Það þýðir að ef rekstraraðilar eru skattlagðir meira en góðu hófi gegnir þá hækka þeir einfaldlega verðmiðann sem persónan borgar. Við getum líka tekið gistináttagjaldið sem við vorum að tala um áðan, ég þekki svo sem ekki skoðun hv. þingmanns á því gjaldi en það er gjald sem þeir sem gista greiða. Við núverandi aðstæður er t.d. 18% af gistináttagjaldi sem þó er innheimt á Íslandi í dag greitt af Íslendingum. Það er ekki greitt af hótelunum, það er greitt af þeim sem gista. Það er bara í gjaldinu fyrir herbergið. Þannig að það eru einstaklingar sem greiða það.

Ef við værum að tala um að greiða þetta úr ríkissjóði mundi það bitna á einstaklingum og náttúrlega fyrirtækjum líka sem eru skattgreiðendur. Með þessu móti tel ég að það sé verið að greiða fyrir því að þeir greiði fyrir þjónustuna sem njóti hennar.