144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

tvö frumvörp um jafna meðferð.

[15:18]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja um afdrif tveggja frumvarpa. Annað er frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna og hitt er frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði á grundvelli aldurs, kynþáttar, kynhneigðar, fötlunar, trúarbragða og þar fram eftir götunum. Í þingmálaskránni fyrir þennan þingvetur voru þessi mál kynnt til sögunnar og gert ráð fyrir að þau yrðu lögð fram haustið 2014, sem er sem sagt liðið. Drög að þessum frumvörpum voru birt á vef velferðarráðuneytisins í febrúar í fyrra. Þetta snýst sem sagt um að innleiða tvær tilskipanir Evrópusambandsins, annars vegar frá árinu 2000 og hins vegar 2004, ef ég skil rétt.

Við rekum í rauninni lestina í þessari mikilvægu réttarvernd fyrir ólíka hópa. Maður hlýtur að spyrja á hverju strandar. Þetta er eiginlega orðið skammarlegt.

Ég á ekki von á öðru en að þingið sé jákvætt gagnvart þessum málum. Ég veit að drögin voru send víða og margir hafa haft aðkomu að þessum frumvörpum. Ég hvet ráðherrann til að koma með þessi mál inn í þingið og láta ekkert stoppa sig. Ég vil nýta tækifærið hérna og spyrja hvort við eigum ekki von á þeim á næstu dögum.