144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að ég kom því ekki að í ræðu minni þegar talað var um blandaða leið, eða eina eða tvær leiðir, þá vil ég segja með bílastæðagjöld að ég hef töluvert mikinn áhuga á að skoða hvort ekki sé hægt að framkvæma það. Af hverju segi ég þetta? Það var þannig að forsætisnefnd Alþingis var boðið til Þingvalla af Þingvallanefnd í fyrra til að ræða þar um málefni þjóðgarðsins. Við fórum meðal annars upp á Hakið þar sem voru malbikuð bílastæði og Þingvallanefnd velti því fyrir sér hvort setja ætti upp gjaldtökuhlið. Ég verð að segja alveg eins og er að það er leið sem steinliggur að mínu mati. Innheimta bílastæðagjalda þarf ekki að kosta neitt. Hún þarf ekki starfsmann. Ég minni bara á rökin fyrir máli mínu að þegar við förum og leggjum bíl við Keflavíkurflugvöll, þá keyrum við þar inn og setjum Visakortið okkar í eitthvert apparat og eina sem við þurfum að muna eftir er að nota sama kortið þegar við komum heim og sjálfkrafa færist upphæð út af reikningnum. Þetta kostar ekki neitt í innheimtu nema tækjabúnaðinn og eftirlit með honum. Þetta er ódýrasta leiðin.

Hv. þingmaður gat um það og talaði um að landeigendur muni hugsanlega ekki vilja vera með gjaldtökuhlið hjá sér vegna þess að það sé óvinsælt, en hann ræddi líka um innheimtukostnaðinn, að hann væri svo hár. Það er alveg rétt. Þess vegna segi ég: Við þurfum að finna ódýrustu leiðina sem fer með sem minnst af tekjum okkar í alls konar gjöld, þótt það sé nú alltaf gaman að skapa vinnu, það er annar handleggur.

Hv. þingmaður gat um að innheimtukostnaður væri umtalsverður en hann er það nefnilega líka í þeirri náttúrupassaútfærslu sem ráðherrann leggur hér fram, sem mér skilst að ríkisstjórnarflokkarnir standi ekki á bak við, kostnaður yrði nefnilega umtalsverður við þá útfærslu. Þannig að leiða má líkur að því að hv. þingmaður hafi verið að tala um að við ættum að (Forseti hringir.) ríkisvæða innheimtukostnaðinn, eða hvað?