144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér náttúrupassa. Það má líta það sem nýjan skatt og ég er yfirleitt á móti nýjum sköttum. Svo er þetta auk þess markaður skattur, þ.e. tekjunum skal varið til ákveðinna verkefna, og ég er líka á móti mörkuðum sköttum vegna þess að ég tel að það sé í andstöðu við stjórnarskrána þar sem Alþingi hefur fjárveitingavald yfir öllum þeim tekjum sem koma í ríkissjóð. Og við sjáum það víða að menn hafa ekki farið eftir því að dreifa þeim sköttum út, til dæmis útvarpsgjaldinu eins og gert var ráð fyrir.

En af hverju styð ég þetta samt? Vegna þess að þetta kemur í veg fyrir annan skatt, gistináttaskattinn sem líka er markaður og mjög slæmur. Hann hefur ekki skilað eins miklu og menn ætluðu og hann er ekki eins góður og til var ætlast. Ég styð náttúrupassa vegna þess að hann kemur í staðinn fyrir annan skatt.

Umræðan hefur verið misjöfn, mjög misjöfn. Sumir hafa sagt að þeir muni aldrei borga fyrir það að ganga um landið sitt og skoða náttúruna sem forfeður þeirra hafa gert í þúsund ár, aldrei, og fari heldur í fangelsi, verið sé að byggja alveg helling af fangelsum til að koma þeim og þeirra líkum fyrir. Þarna eru hv. þingmenn sem sagt að lýsa því yfir í umræðunni að þeir ætli ekki að fara að lögum. Nú er það þannig að það er ýmislegt í skattalögum sem ég gæti alveg verið ósáttur við og mundi gjarnan vilja neita að borga en mér dettur það samt ekki í hug, ég fer að lögum. Það er bara þannig.

Menn hafa rætt komugjöld, gistináttagjald og náttúrupassa. Þetta eru þær þrjár leiðir sem eru til umræðu og þær hafa allar sína kosti og sína galla. Ég hef nefnt það hérna að komugjöldin lesta flugfargjöld til landsins, komu- eða brottfarargjöld, það er líka hugsanlegt. Það lestar gjald til landsins sem er mjög verðteygið, sama hvað menn segja. Einhver í Bandaríkjunum, Japan eða einhvers staðar vill fara til Íslands af því að hann sat einhvers staðar fastur eða einhver talar um Ísland og þá fer hann að velta kostnaðinum fyrir sér og þar kemur fyrst fargjaldið. Lágfargjaldaflugfélög munu lenda illa í komugjöldum þannig að komugjöldin eru ekki sérstaklega væn til að skapa eftirspurn eftir þjónustunni.

Síðan er gistináttagjaldið og það er nefnilega annar hluti sem fræðin segja að menn skoði þegar þeir fara eitthvert í ferðalag; hvað kostar að gista? Það sem menn taka ekki inn í dæmið þegar þeir skoða kostnað við ferðir er allur kostnaðurinn. Það er matur, farið er út að borða, það eru aðgöngumiðar hér og þar o.s.frv., það er þessi óvænti kostnaður sem menn eru svo hissa á þegar þeir koma heim, alla vega Íslendingar, hvað hann er óskaplega hár. Það allt er ekki reiknað með þegar menn taka ákvörðun um að fara í ferðina, þannig að náttúrupassinn hefur þann kost fram yfir hinar tvær leiðirnar að vera óháður. Hann hefur ekki eins mikil áhrif, verðteygnin er ekki eins mikil, hún er miklu minni.

Það eru gífurleg verkefni fyrir hendi. Ég fór fyrir nokkrum árum upp á Keili sem endranær. Það er skelfilegt, herra forseti, að horfa upp á það að hálfur kílómetri af hrauni er lagður undir troðinn mosa. Það er virkilega ljótt, þetta er eins og svöðusár. Hver og einn sem labbar þarna veldur ekki skaða, það er fjöldinn sem veldur skaða. Ég hef farið niður Kattahryggi í Þórsmörk. Það er líka skelfilegt, herra forseti. Búið er að skemma þá náttúrufegurð, það er bara búið að skemma hana. Ég nefndi fyrr í umræðunni mosaþemburnar hjá Lakagígum. Þær eru óskaplega viðkvæmar, mjög merkilegt fyrirbæri, gaman að labba þar einn en um leið og fjórir, fimm eða tíu labba þar yfir er komin náttúruskemmd. Þetta er verkefnið og það er um allt land. Þetta er gífurlegt verkefni.

Við getum gleymt umræðunni um ósnortin víðerni. Það eru engin ósnortin víðerni vegna þess að ferðamennirnir hafa snortið þau öll, þeir hafa skemmt þau meira og minna. Ég hef farið í Þórsmörk. Þar eru komnir stígar upp um fjöll, tréstígar. Er það eitthvað í líkingu við íslenska náttúru? Ónei. Á Þingvöllum er komin heljarinnar stálbrú niður Almannagjá. Hvað er þetta eiginlega? Þetta var ekki svona, ekki þegar ég var yngri. Þá löbbuðu menn bara þar niður. Nú er kominn einhver óskapnaður þarna, handrið og ég veit ekki hvað. Ég er ansi hræddur um að nú þegar sé mjög mikið tapað af náttúru Íslands, það sem við upplifðum einu sinni sé ekki lengur til og komi aldrei aftur, vegna þess að við verðum að byggja þessa stiga, við verðum að byggja þessar brýr, við verðum að byggja þessi handrið. Það er akkúrat vandamálið. Sá gífurlegi fjöldi ferðamanna sem kemur til landsins hefur gert það að verkum að Íslendingar hafa tapað ósnortnum víðernum og stórum hluta af náttúru landsins. Það er bara þannig.

Hvað geta menn gert? Jú, menn geta byggt frekari býr, frekari stíga og frekari handrið o.s.frv. og greitt það úr ríkissjóði, það er ein leiðin og segja: Það eru svo miklar tekjur af ferðaþjónustunni að það er alveg innstæða fyrir því. En það er bara þannig, herra forseti, að í umræðunni um fjárlögin og fjáraukalögin vantar alltaf pening. Það vantar pening í heilbrigðiskerfið, það vantar pening í menntakerfið, það vantar alls staðar pening, og svo ætla menn að segja: Það er enginn vandi að setja milljarð í þetta, við höfum svo miklar tekjur af þessu. Það er bara ekki þannig. Ég er hlynntari því að ná í tekjur sem eru eins konar þjónustutekjur. Menn borgi fyrir það sem þeir njóta.

Ég hef farið í gegnum gistináttagjaldið og komu- og brottfarargjöldin. Ég hef bent á að gjaldið af náttúrupassa sé mjög lágt, gefi miklar tekjur af því að fjöldi ferðamanna sé svo mikill. 1.500 kr., Íslendingar borga þá 500 kr. á ári. En í umræðunni hefur meira að segja verið talað um að menn mundu missa húsið sitt út af þeirri 15 þús. kr. sekt sem kæmi ef ekki yrði borgað. Ég skil ekki umræðuna alveg, ég held að einhverjir séu farnir út í einhverjar öfgar. En það sem menn hafa nefnt hér töluvert mikið er að Íslendingar þurfi að borga fyrir að ganga um náttúru lands síns. Þetta hafa menn nefnt mikið. Ég ætla að koma með hugmynd inn í nefndina, að Íslendingar borgi ekki. Nú er það þannig að ekki má mismuna fólki eftir þjóðerni eða öðru slíku en við gætum tekið upp sérstakan persónuafslátt sem yrði skilyrtur því að menn notuðu náttúrupassa. Við gætum hreinlega tekið sérstakan persónuafslátt, sem allir Íslendingar fá, sem þeir gætu svo notað til að kaupa náttúrupassa. Þá borga Íslendingar ekki neitt. En verið er að tala um 1.500 kall, herra forseti, á þriggja ára fresti, ég veit ekki hvort ég mundi leggja til þetta flækjustig í skattkerfinu bara til að Íslendingar sleppi við að borga til að horfa á náttúru landsins. Nú eru menn í rauninni ekki að borga fyrir að horfa á náttúruna. Menn eru að borga fyrir aðstöðuna sem átroðsla þeirra og fjölda annarra veldur á náttúrunni, koma í veg fyrir að þeir myndi stíga og annað slíkt, það er það sem menn eru að tala um.

Menn hafa talað dálítið um aðgengi almennings að náttúrunni. Vitnað hefur verið í Grágás, að menn geti gengið hvar sem þeim dettur í hug. Það er ekki þannig, það er dálítið liðið síðan Grágás var sett. Ef ég kem í Dimmuborgir, ég hef nefnt það, þá þarf ég að ganga á ákveðnum stígum. Ég veit ekki hvert yrði upplitið á fólki ef ég færi nú með Grágás í hönd og labbaði þar upp á allar gnípurnar og mosann og mundi eyðileggja það, ekki ég einn, en ef hinir gerðu það líka þá er ég ansi hræddur um að það færi illa um Dimmuborgir. Þjóðvegur 1 liggur í kringum landið. Ég gæti tekið upp á því með Grágás í hönd að vilja labba eftir miðjum þjóðveginum; hér ætla ég að ganga. Það yrði reyndar dálítið hættulegt en menn hafa talað um að fara í fangelsi og ég veit ekki hvað. Hvers vegna skyldi ekki einhver taka upp á því að ganga eftir þjóðvegi 1 miðjum til að leggja áherslu á almannaréttinn. Ég held að ýmislegt hafi nú breyst síðan Grágás var sett og menn þurfa rétt aðeins að skoða það.

Verkefnið sem bíður hv. nefndar er ærið og merkilegt. Ég vona að hv. nefnd taki málið sem slíkt, því að brýnt er að finna á þessu lausn. Menn fá umsagnir og geta lesið þær, menn koma sjálfir með hugmyndir og fara í gegnum þær leiðir sem eru til skoðunar og finna á því lausn þannig að einhvern tíma í maí sé komin lausn á málinu. Hv. nefnd verður hreinlega — ég skora á hana að hún ákveði að finna lausn fyrir lok þingsins hver sem hún verður, herra forseti, vegna þess að eins og ég gat um áðan er náttúran í mikilli þröng og það sem meira er, ég held að þetta sé miklu stærra verkefni en menn halda. Ég hef hvergi heyrt talað um að leggja stíg að Keili til dæmis, ég hef ekki heyrt talað um það, en slíka umræðu vantar líka. Verkefnin eru því ærin, mikla peninga þarf í þau og ég sé náttúrupassann sem lausn á því.