144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:20]
Horfa

Áslaug María Friðriksdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg rétt að atvinnuveganefnd muni að sjálfsögðu fjalla um þetta og eflaust leggja fram alls konar hugmyndir. Þegar ég horfi á frumvarpið og þá útreikninga sem þar eru, meðal annars á það hvaða verð mun hamla því að fólk komi til landsins þá erum við komin langt fram yfir það. Ef við erum að tala um 300 kr. í gistináttagjald eða 400 kr. og 200 kr. í komugjöld þá erum við farin að tala um 7.000 til 8.000 á ári fyrir þá sem gista kannski 10 skipti og ferðast nokkrum sinnum í flugvél. Ég held að þá værum við komin langt fram úr því sem hér var verið að reyna að gera, þ.e. að hlífa Íslendingum eða þeim sem hér búa við þessum gjöldum.

Við erum með kostnað sem nemur einu stöðugildi í eftirliti — það er auðvitað enginn að fara, og það hefur margoft komið fram í umræðunni, að sjá einkennisklæddan starfsmann hlaupa út um þúfur og elta fólk, það sér það enginn fyrir sér, heldur verður þetta skilgreint inni á ákveðnum svæðum. Við vitum ekki nákvæmlega hvar þau svæði eru og ég tek undir að það verður að skilgreina það betur. Það verður gert, það hefur líka komið fram. En vel er hægt að taka klukkutímarassíu hér og þar í eftirlit. Það hefur mikinn fælingarmátt nákvæmlega eins og til dæmis í sporvagnakerfum stórborga.