144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:50]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef í tveimur ræðum um þetta mál gert að umtalsefni að ég er sammála því að leggja á gjald til að vernda og bæta ferðamannastaði og takast á við aukinn fjölda ferðamanna. Ég hef líka talað fyrir því sem atvinnuveganefndarmaður, og það hefur aldrei verið leiðrétt af t.d. hæstv. ráðherra, sem hefur hlustað á ræður mínar, að það væri ekki klárt af hennar hálfu að málið kæmi til atvinnuveganefndar.

Ég hef líka talað fyrir því og meginhluti ræðu minnar áðan var um að vinna í atvinnuveganefnd og skapa sem mesta sátt við greinina og hér á þingi um hvaða leið skuli fara. Ég hef talað um það, virðulegi forseti, að við höfum engan tíma og við munum vinna þetta hratt og vel og klára fyrir vorið. Við bíðum ekkert með þetta mál.

Þess vegna skil ég ekki af hverju ráðherrann í síðustu ræðu, þegar umræðan er að verða búin, gefur upp boltann og lætur í ljós efa um það til hvaða nefndar málið eigi að fara. Svo sagði hæstv. ráðherra að hún hefði sjálf talið allan tímann að eðlilegt væri að málið færi til atvinnuveganefndar. Hvað er að breytast á síðustu stigum málsins, síðustu mínútunum, sem veldur því að ráðherra kemur í ræðustól og gefur upp tvo bolta og nefnir þetta sem möguleika? Allt í lagi, ég skal taka viljann fyrir verkið hjá hæstv. ráðherra og hún hlustar á rök.

Virðulegi forseti. Ég ráðlegg ráðherranum að koma á eftir í andsvar við mig og svara þessu andsvari mínu og koma með það alveg klárt og skýrt að tillaga hennar sé að málið fari til atvinnuveganefndar eins og þingsköp gera ráð fyrir, eins og hefðin gerir ráð fyrir og hefur sýnt okkur, að atvinnuveganefnd og forveri hennar, iðnaðarnefnd, fjallar um þessi mál. Hver var megintilgangurinn með Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, flutti á sínum tíma? Jú, að tryggja öryggi ferðamanna (Forseti hringir.) og auka öryggi og vernda náttúru. Sama og við erum að tala um í dag. (Forseti hringir.) Þetta á hvergi annars staðar heima samkvæmt þingsköpum en í atvinnuveganefnd.