144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:10]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég hefði óskað þess að hún hefði verið ívið málefnalegri og kannski minna stóryrt.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún hafi tekið málið upp með þeim hætti sem hún gerði hér í ræðu sinni við fulltrúa Vinstri grænna sem voru í meiri hluta í Hafnarfirði á síðasta kjörtímabili og settu upp verkefnið Áfram – Ný tækifæri í Hafnarfirði, þar sem finna má skilyrðingar. Upplýsti hv. þingmaður borgarfulltrúa VG um afstöðu sína og notaði hún sams konar orð og hún notaði hér varðandi mig og lýsingar á þeim skilyrðingum sem til staðar eru í reglum Reykjavíkurborgar, þar sem meira að segja er að finna reglur sem snúa að læknisfræðilegum aðstæðum fólks? Er hv. þingmaður ósammála eða fylgjandi því að hin lagalega óvissa verði áfram til staðar sem gerir sveitarfélögum nú kleift að setja þær skilyrðingar sem þau vilja? Þegar við fórum yfir þau sveitarfélög sem eru með einhvers konar skilyrðingar í reglum sínum sem snúa að fjárhagsaðstoð kom í ljós að eitt sveitarfélag var ekki með þess háttar skilyrðingar, það er Vesturbyggð, félagsþjónusta Vestur-Barðastrandarsýslu.