144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:57]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ræðuna. Eins og ég sé frumvarpið er það hvati fyrir fólk til þess að fá aðstoð frá sveitarfélögum til að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Ég sé það sem hvata til að hjálpa einstaklingum sem líður illa og þurfa aðstoð til að komast af stað og þurfa jafnvel á ákveðnum virkniúrræðum að halda. Öll getum við lent í því að missa vinnuna og lenda í þannig aðstæðum að við þurfum á aðstoð sveitarfélagsins að halda.

Í mínum heimabæ, Akranesi, er virkniúrræði sem kallast Skagastaðir, sem er samstarfsverkefni Akraneskaupstaðar og Vinnumálastofnunar og er fyrir einstaklinga á aldrinum 16–30 ára sem þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins. Markmiðið er að hvetja unga atvinnuleitendur til virkni og atvinnuleitar og styðja þá í að öðlast starfsreynslu á vinnumarkaði. Þessir einstaklingar fá stuðning við atvinnuleit og þeir sem hafa litla reynslu af vinnumarkaði eða hafa lengi verið frá vinnumarkaði fá stuðning við að komast í starfsþjálfun, í einhverjum tilvikum eru það átta tímar á viku í starfsþjálfun eða í vinnustaðaþjálfun ef þörf er á. Þeir fá aðstoð ráðgjafa við að vinna eftir einstaklingsmiðaðri nálgun út frá markmiðum sem hver og einn setur sér varðandi virkni og atvinnuleitarstarfsvettvang. Með markvissri ráðgjöf fræðslu, starfsþjálfun og fleira hefur fjöldi einstaklinga fengið vinnu með minnkandi atvinnuleysi.

Mig langar að sjá hvort hv. þingmaður sjái ekki einhverja þætti í frumvarpinu sem séu hvati fyrir einstaklinga sem verið hafa í erfiðri stöðu í einhvern tíma, sem er mismunandi langur. Ég kem að hinu atriðinu í seinna andsvari mínu.