144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

staðan á vinnumarkaði og kjör lág- og millitekjuhópa.

[14:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra notaði talsvert af sínum tíma hér til að fara yfir launaþróun almennt á hinum opinbera markaði og hinum almenna markaði. Það hefur hann gert áður og það var ekki hluti af því sem ég spurði um því að ég hef lýst skilningi á þeim sjónarmiðum sem hæstv. ráðherra fór yfir þar. Mér finnst hins vegar leiðinlegt að hæstv. ráðherra svaraði ekki því sem ég spurði um sem eru meðal annars þær aðgerðir sem felast í skattbreytingum, sem felast í aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu og aðrar þær aðgerðir stjórnvalda sem óneitanlega hafa áhrif á kjör almennings í landinu, hvernig hann sæi fyrir sér að stjórnvöld gætu beitt sér til að stuðla að betra umhverfi fyrir kjarasamninga. Hlutverk stjórnvalda er kannski fyrst og fremst að skapa slíkt umhverfi.

Hæstv. ráðherra sagði líka að honum fyndist mikilvægt að hér væri stuðlað að áframhaldandi stöðugleika. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra. En hvernig skilgreinum við stöðugleika og viljum við viðhalda þeim stöðugleika að hér sé alltaf 9–10% hópur undir fátæktarmörkum? Það ástand er nokkuð stöðugt og það er ekki eftirsóknarverður stöðugleiki, virðulegi forseti, að hér sé ákveðinn hópur eins og ég fór yfir áðan. Stór hluti eða helmingur þess hóps er á leigumarkaði, stór hluti þess hóps er einstæðir foreldrar. Við hljótum að velta fyrir okkur þegar við vitum að hér í þessu landi eru til mikil verðmæti hvernig við getum skipt þeim með réttlátari hætti.

Á síðasta kjörtímabili sáum við að minnsta kosti þá þróun að það dró úr ójöfnuði í tekjum, en hér er enn talsverð misskipting þegar kemur að eignum. Punkturinn er kannski sá, og það er það sem ég spyr hæstv. ráðherra um, að (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að það sé nauðsynlegt að bæta hér kjör lág- og millitekjuhópa. Ég er sammála því sjónarmiði hæstv. forsætisráðherra. Ég tel að til séu verðmæti (Forseti hringir.) í þessu samfélagi sem gera okkur það kleift. Hvert er mat hæstv. fjármálaráðherra á því markmiði og hvernig ætlar hann að vinna að því?