144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[18:42]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert ef á að ljúka þessu á miðju ári. Ég ætla ekki að letja hópinn, þvert á móti á hann að reyna að drífa sig áfram og klára þetta eins fljótt og hægt er. Þá er mjög brýnt að við fáum alla þá reynslu sem þegar hefur orðið varðandi NPA til að hægt sé að nýta hana við lagagerðina.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann um það sem ég nefndi aðeins fyrr í umræðunni og maður hefur svolítið slæma reynslu af þegar standa til svona stórbreytingar, það er biðin sem oft fylgir þegar eitthvað stendur til og menn halda aftur af sér með breytingar. Það er sama og að vera ekki með uppgjörið eða matið á reynslunni af yfirfærslu á málaflokknum í heild. Nú átti að skila skýrslu á síðasta ári, í lok árs, og endurmeta alla fjárhagsþættina og annað slíkt. Það er búið að fresta því. Hvernig spilar það saman við nýja lagasetningu? Það er gríðarlega stór og mikilvægur þáttur varðandi framhaldið. Ef menn bíða mjög lengi þá er hætt við því líka að þeir haldi bara öllu óbreyttu á meðan verið er að bíða eftir því að ný lög komi eða breytingar verði þar.

Við höfum rætt notendastýrða persónulega aðstoð sem tengist auðvitað réttindum og samningi Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra. Hafa menn í hópnum tekið einhverja afstöðu til þess með hvaða hætti eigi að löggilda eða innleiða þann sáttmála?

Í síðasta lagi er starfsmannahald mjög mikilvægt og hefur verið rætt töluvert í dag. Það geta komið upp árekstrar á milli notandans og þess sem vill tryggja gæðin, t.d. um notkun heilbrigðisstarfsmanna varðandi NPA-þjónustuna. Margt af því sem þarf að sinna í daglegu lífi þess sem þarf notendastýrða persónulega aðstoð getur verið að mati margra verkefni heilbrigðisstarfsmanna. Þarna var fyrirsjáanlegt að mundi verða einhver ágreiningur og hann hefur kannski komið að einhverju leyti upp. Hvert er hlutverk hvers? Hefur sú umræða komið upp?