144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera kjaramálin að umtalsefni. Við stöndum frammi fyrir því sem þjóð að 45 kjarasamningar eru að renna út eftir nokkra daga, 28. febrúar. Því miður horfir ekki vel því að viðhorfið hjá atvinnulífinu birtist í þeim orðum að allt fari á hliðina ef lægstu laun hækka. Það þýðir þó ekki að þeir sem hafa þessi lægstu laun í samfélaginu ætli sér ekki að fylgja því eftir með átökum, þrátt fyrir að vera í þessum lágu þrepum.

Auðvitað veltir maður fyrir sér aðkomu hins opinbera, sveitarfélögin hafa til dæmis verið að borga frekar illa miðað við margt annað. Formaður BSRB hefur haft orð á því að rekin sé mjög öflug láglaunastefna af hálfu sveitarfélaganna. Við vitum þó að það sem hefur snert hvað mest núna er hækkun matarskattsins sem fólk er verulega farið að finna fyrir og ræðir við mann, gerði það í þessari kjördæmaviku. Það er líka tekjuskattsbreytingin og þær áætlanir sem þar hafa verið uppi, það eru húsnæðismálin sem eru í uppnámi og ekkert kemur enn fram, og ráðherrann segir að þetta taki miklu lengri tíma en hún hefði gert ráð fyrir, það eru sjúklingagjöldin o.s.frv. Það er lengi hægt að telja.

Allt þetta hefur gert að verkum að fólk er tilbúið til að fara í hart. Það sættir sig ekki lengur við að við það sé sagt: Hér fer allt á hliðina, hér fer verðbólga af stað og allt verður ómögulegt ef lægstu launin hækka. Á sama tíma borga stór fyrirtæki millistjórnendum og stjórnendum há laun og arður er tekinn út úr greinum eins og fiskveiðum og af öðrum auðlindum sem við eigum.