144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. síðasta þingmanni. Það hefur verið þrengt að embætti sérstaks saksóknara og ekki bara að því embætti heldur líka að Samkeppniseftirlitinu. Fjárveitingar til embættis skattrannsóknarstjóra hafa líka fallið niður. Það er mikilvægt að ríkisstjórnin hætti að þrengja að þeim aðilum sem eiga að halda uppi lögum í reglu í landinu og kippi ekki teppinu undan sérstökum saksóknara á lokametrum rannsóknar, ekki bara rannsóknanna vegna heldur líka þeirra vegna sem eru undir grun. Því miður hafa margar rannsóknir verið allt of lengi í gangi.

Ég kalla líka eftir því að hæstv. fjármálaráðherra komi hingað inn í þingið með frumvarp sem afli skattrannsóknarstjóra ótvíræðra lagaheimilda til að byggja saksóknir á gögnum sem keypt eru um skattaskjól. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur réttilega bent á að 263. gr. hegningarlaga kynni að spilla saksóknum sem byggðar væru á gögnum sem keypt væru með þeim hætti. Þetta mál hefur í heilt ár verið til umræðu í þinginu og ég undrast það að hæstv. fjármálaráðherra sé enn ekki kominn hingað inn með mál til að tryggja að lagastoð fyrir því að byggja á slíkum gögnum sé skýrlega og klárlega fyrir hendi.

Ég kalla líka eftir því að fjármálaráðherra komi hingað inn með fjárveitingar, ekki bara til kaupanna heldur líka til skattrannsóknarstjóra, svo að hann geti ráðið starfsmenn til að vinna úr þeim gögnum sem skattrannsóknarstjóri hefur kallað eftir. Það liggur fyrir yfirlýsing, held ég, úr öllum flokkum stjórnarandstöðunnar, það mun ekki standa á henni að greiða slíkum þingmálum leið. Það er þess vegna ekki eftir neinu að bíða fyrir hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson. Hann þarf bara að koma með frumvörpin um fjárheimildirnar, um starfsmennina og um hinar skýru lagaheimildir til að ná í gögnin úr skattaskjólunum hingað inn í þingið og þau munu greiðlega verða afgreidd hér í gegnum nefndir þess.