144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[15:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í 2. minni hluta atvinnuveganefndar leggjum til breytingu í þessu máli, að stórfyrirtækin, stóriðjan og þeir sem ekki eru innan dreifiveitna taki þátt í því að jafna dreifingu á raforku og niðurgreiðslu á jöfnun húshitunarkostnaðar. Umhverfis- og auðlindaskattur er nú lagður á raforku og heitt vatn. Þessi skattlagning á stórfyrirtækin rennur út um næstu áramót og við leggjum sem sagt til að sá skattur verði framlengdur og nýttur til þess að jafna kostnað við dreifingu á raforku og niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði. Þannig munu stórfyrirtækin líka taka þátt í þeirri samfélagslegu ábyrgð að jafna dreifingu á raforku- og húshitunarkostnað í landinu og gera það strax á næsta ári að þetta verði að fullu jafnað eins og við leggjum til hér.