144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[17:07]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vildi þannig til að nefndin tók þetta mál fyrir áður en búið var að mæla fyrir því. Ég spurði fjármálaráðuneytið út í það og fékk ekki svör við því, þannig að ég vona þá að þegar við hittum nefndina næst séu þær sértekjur sem niðurgreiðslur á húshitun hafa til að bera einhvers staðar tiltækar.

Það er mikið talað um nýju lögin. Samkvæmt því sem ráðuneytið sagði sjáum við fyrst framsetningu á þeim í fyrsta lagi árið 2017 og því eigum við von á öðru svona frumvarpi með þessari framsetningu, sem er mjög ruglingsleg og hefur verið, aftur á næsta ári og þarnæsta því að þetta er fyrir árið 2013. En það er líka annað sem mig langar að spyrja ráðherrann um og er á bls. 76 þar sem landlæknir er gerður upp og lýðheilsusjóður undir honum, þ.e. þessi mismunur á framsetningu annars vegar í ríkisreikningi og hins vegar í lokafjárlögum. Af hverju stemmir þetta ekki saman? Vert væri að spyrja hvort ráðherrann hafi einhverja tillögu að nýrri framsetningu fylgiskjalanna, t.d. hvort skýrara væri að fylgiskjal 2 sýndi (Forseti hringir.) fjárhæðina sem felld er niður og líka þá sem fer yfir á næsta ár.