144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

örnefni.

403. mál
[14:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að gerast dómari í þeirri sök hvort sé gagnmerkara mál, frumvarp til laga um örnefni eða tillagan um ísaldarurriðann. Ísaldarurriðinn er vissulega ekki örnefni en það er nafngift. Það væri auðvitað fróðlegt út af fyrir sig að vita hvernig sú nafngift varð til. Er það tillögumaður sem kom þessu heiti á, að nefna skyldi fisktegundina ísaldarurriða?

En það er alveg rétt að nafngiftir eru líka nátengdar þessum arfi þó að þær séu ekki örnefni eða nöfn á náttúrulegum fyrirbærum í þeim skilningi að vera hóll eða hæð, fjall eða lækur eða á eða hvað það nú er, heldur lifandi fyrirbæri eða önnur fyrirbæri í náttúrunni. Í ræðu minni lagði ég einmitt áherslu á það sem hv. þingmaður kom aðeins inn á, að auðvitað væri mjög mikilvægt að skrá þetta og varðveita. Nú höfum við tæknina, heldur betur. Nú er ekkert vandamál með stafræna kortagrunna og GPS-hnit og staðsetningar að gera þetta mjög nákvæmt, þess þá heldur megum við ekki skorast undan því að takast á við að bjarga öllu því sem bjargað verður. Örugglega er mikið glatað, það er náttúrlega engin spurning. Þannig hefur það sjálfsagt alltaf verið upp að vissu marki að örnefnin hafa þróast, tekið breytingum, sum týnst, önnur komið í staðinn. Það gæti að sjálfsögðu haldið áfram þó að við geymdum þann grunn, þá vitneskju sem við höfum besta í dag. Svona var þetta, þetta hétu hlutirnir á tímum feðra okkar og forfeðra og formæðra. Síðan þróast þetta allt saman.

Þannig að ég tek það svo að hv. þingmaður sé sammála mér um að það sem þyrfti að gera í tengslum við þetta mál, ágæt sem þessi lagasmíð kann að vera, væri að gera verulega gangskör að vinna úr örnefnaskránum og skrá þær betur.