144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alltaf að staðfestast betur og betur að það var ekki tímabært af meiri hluta atvinnuveganefndar að ljúka umfjöllun sinni um málið. Ég held að það sé meira að segja ástæða til að ætla að í einhverjum tilvikum hafi nefndarmenn í atvinnuveganefnd ekki verið búnir að sjá þessi álit þegar vinnu nefndarinnar lauk. Það kom í reynd fram hér í dag. Það kann að skýrast af fjarveru á einstökum fundi, en nokkurn veginn samtímis afgreiddi atvinnuveganefnd málið frá sér og hún fékk hin ágætu og ítarlegu álit umhverfis- og samgöngunefndar til sín. Reyndar vill svo til að ég sótti eina tvo fundi í atvinnuveganefnd og á seinni fundinum voru drög að nefndarálitum tilbúin, það var áður en nokkuð hafði komið frá umhverfisnefnd, og ég sé ekki að nefndarálitið hafi breyst mikið frá þeim drögum, satt best að segja.

Ég held að það sé alveg augljóst að þeim mun meira sem er þrengt að þessu og þeim mun meira sem menn tortryggja ferlið og finnst þeir vera hliðsettir eða jaðraðir í ferlinu, eins og sveitarfélög, landeigendur, félagasamtök og aðrir slíkir, þeim mun óvænna er um að góðar málamiðlanir og samkomlagsniðurstöður komi út úr ferlinu. Það er það sem ég held að sé alls ekki búið um hér með fullnægjandi hætti og það er það sem ég á í raun og veru við með því að átökin flytjist þá til. Menn gefa sér ekki tíma í að skiptast á skoðunum og leita lausna og það er alveg ljóst að valdið liggur í allt of miklum mæli hjá flutningsfyrirtækinu, Orkustofnun stimplar og aðilar munu upplifa sig þannig að þeir geti svo sem komið sjónarmiðum sínum á framfæri, það er tryggt að þeir fá fund og það er hlustað á þá, en það er alveg ljóst hvar valdið liggur. Valdið liggur í raun og veru hjá flutningsfyrirtækinu. Það gerir tillöguna til Orkustofnunar, til staðfestingar, og valdið liggur í því að hafa (Forseti hringir.) tillöguréttinn.