144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:32]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er góð spurning vegna þess að ég man ekki eftir því að nokkur hafi mælt þessu máli bót. Það er satt best að segja nokkuð fátítt að verða vitni að því í störfum þingsins þegar mál eru send á milli nefnda eins og hér er gert að við fáum til baka efnismeira, ítarlegra og betur unnið álit úr umsagnarnefnd en úr sjálfri nefndinni sem hefur málið til umfjöllunar, með fullri virðingu fyrir þeim einblöðungi sem kom frá meiri hluta atvinnuveganefndar í þessu máli. Þá var lagst í það bæði af hálfu meiri hluta og minni hluta umhverfisnefndar, sem var í öllum meginatriðum mjög sammála í vinnu sinni, í töluverða rannsóknarvinnu í þessu máli og skilaði miklu umfangsmeira áliti en kemur frá sjálfri nefndinni sem hefur málið til umfjöllunar.

Það sýnir bara hvaða vinnubrögð eru hér á ferðinni og hvernig menn hafa ákveðið að afgreiða málið, í raun og veru bara eins og á færibandi án þess að fara í efnisleg rök, án þess að svara þeim ábendingum eða taka til greina einhverjar þær fjölmörgu ábendingar sem fram komu. Ég nefni sem dæmi að ég spurði hv. þm. Þorstein Sæmundsson að því í dag af hverju ekki hafi verið komið til móts við tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga um svokallaða sáttanefnd. Það eru engin efnisleg rök sem hægt er að nefna gegn því og engin efnisleg rök sem nefndin hefur fram að færa í þeim efnum nema bara að það hafi verið niðurstaða nefndarinnar að það væri óþarfi. Það var enginn rökstuðningur fyrir því. Ég held að það sé mjög þörf ábending, að það sé ágætisleið að búa til einhvers konar ventla, einhverja vinkla til þess að menn geti þá jafnað ágreining. En nei, því er í engu svarað.