144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:19]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að kerfisáætlun eigi að fara í umhverfismat. Eins og ég skil þetta frumvarp er ekki gert ráð fyrir því að kerfisáætlun fari í umhverfismat. Hvað varðar kerfisáætlun eins og henni er ætlað að vera í þessu frumvarpi er það er auðvitað mikið inngrip í náttúruna vítt og breitt um landið þegar flutningsfyrirtæki kemur með einhverja tillögu um flutningsmannvirki og Orkustofnun skrifar upp á það. Þá er veruleikinn orðinn sá að sveitarfélög verða að taka það inn í sitt skipulag innan fjögurra ára. Finnst hv. þingmanni það ekki það stórt mál, sem snýr að umhverfisþætti varðandi þessi flutningsmannvirki, að ástæða sé til að kerfisáætlun sem slík fari í umhverfismat?

Það hefur líka komið fram að umhverfismálum er yfir höfuð ekki gert hátt undir höfði í þessu frumvarpi og hefur verið vakin athygli á því við okkur nefndarmenn atvinnuveganefndar að í 2. gr. er ekki minnst á að tekið verði tillit til umhverfismála, ferðamála, byggðamála eða skipulagsmála við framkvæmd kerfisáætlunar. Er það ekki undarlegt í ljósi þess að einn stærsti atvinnuvegur okkar í dag er að verða ferðaþjónustan og allt sem henni fylgir og yfir 80% af ferðamönnum sem koma til landsins koma akkúrat út af víðernum og ósnortnu landslagi og fallegri íslenskri náttúru?