144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég er mjög sammála honum að mestu leyti um þetta. Það eru ekki rök fyrir því að banna 40 ára jafngreiðslulán að þau séu dýr því með sömu rökum mætti banna öll lán og leyfa bara þeim einum að taka lán sem þurfa ekki á þeim að halda, því það kostar auðvitað alltaf að fá peninga lánaða og þeim mun meira sem þeir eru fengnir lánaðir í lengri tíma. Eðli málsins samkvæmt er 40 ára lán miklu dýrara en 25 ára lán. Hv. þingmaður bendir réttilega á að það hefur nýst lágtekjufólki hlutfallslega langbest. Þegar þessu kerfi var komið á var það gert á sama tíma og hið félagslega íbúðakerfi var lagt niður af hálfu núverandi ríkisstjórnarflokka, þar sem mjög löng lán voru veitt með enn lægri vöxtum, 1% vöxtum, til allt að 50 ára. Þetta átti að koma á móti og síðan áttu vaxtabætur að mæta að hluta til greiðslubyrðinni til að gera fólk ekki mun verr sett.

Mér finnst þess vegna verið að byrja á öfugum enda með því að byrja á að banna 40 ára lán. Það á að byrja á að koma með aðra úrlausn eignarforms eða öruggari leigu fyrir lágtekjufólk áður en 40 ára lán eru bönnuð. Svo skulum við ræða að banna þau.

Ég vek líka athygli á því að leiguverðið eins og það er orðið í miðborg Reykjavíkur núna er svo hátt að ef lágtekjufólk eða ungt fólk sem ætlar að kaupa litla íbúð nær yfir höfuð að kljúfa útborgun í íbúð, lætur nærri að afborgun af 40 ára láni sé helmingur af leigu, algengri leigu. Af hverju er það markmið ríkisstjórnarinnar að banna fólki þessa leið til sjálfsbjargar? Ég bara skil það ekki og ég hlakka til að eiga hv. þm. Pétur Blöndal sem bandamann í því að reyna að koma vitinu fyrir stjórnarmeirihlutann í þessu efni.