144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[17:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og tel að þingið eigi að lögfesta skýrlega eins takmarkaðar heimildir fyrir lánum af þessu tagi og nokkur kostur er og nefndin telur mögulegt.

En ég vil spyrja hv. þingmann hér í stuttu seinna andsvari hvort hann hafi ekki áhyggjur af ójafnræði borgaranna. Áður en bólan varð alger á árunum 2006, 2007 og 2008 og gengistryggðu lánin urðu alls ráðandi var þetta lánaform að mörgu leyti fyrir forréttindahópa, fyrir fólk sem átti mikið eigið fé eða hafði fengið mjög hátt greiðslumat eins og gert er ráð fyrir í þessum reglum. Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af því að hér geti orðið tvenns konar lánakjör, annars vegar mjög hagstæð lán á lágum vöxtum tengd erlendri gjaldeyrisáhættu fyrir efnafólk, fyrir hátekjufólk og fyrir fólk með tekjur í erlendri mynt en síðan íslensk lán með gríðarlega háum vöxtum fyrir allan almenning?