144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

562. mál
[15:10]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins er farið í gegnum forsendur dóms Evrópudómstólsins frá 1. mars 2011 í svokölluðu Test-Achats-máli sem fjallar um notkun á kynjabreytu í tryggingastærðfræðilegum útreikningi. Það er sem sagt gert ráð fyrir að slíkt verði áfram heimilt í útreikningi á iðgjöldum eða á bótafjárhæðum svo framarlega sem það komi ekki fram í mismunandi iðgjöldum eða bótafjárhæðum fyrir einstaklinga á grundvelli kyns. Þannig er áfram heimilt að safna, geyma og styðjast við kyn eða kyntengdar upplýsingar sem leiða ekki til mismununar á grundvelli kyns. Þannig verður vátryggingafélögum áfram heimilt að nota kynjabreytur við útreikning á innra áhættumati, einkum útreikning vátryggingarskuldar í samræmi við gjaldþolsreglur á sviði vátrygginga, svo sem að fylgjast með kynjasamsetningu viðskiptavina sinna í tryggingastærðfræðilegum útreikningum til grundvallar verðlagningu. Þessi setning er nánast jafn flókin og tryggingastærðfræðilegur útreikningur í sjálfu sér. Í leiðbeiningunum sem komu fram í framhaldi af þessum dómi kemur fram að stundum þarf að taka mið af kynferði í ljósi tiltekins lífeðlisfræðilegs munar á körlum og konum. Varðandi hins vegar líf- og heilsutryggingar geta iðgjöld og bætur tveggja einstaklinga vegna sams konar vátryggingarsamnings ekki verið mismunandi einungis vegna þess að þeir eru ekki af sama kyni. Hins vegar getur verið um að ræða aðra áhættuþætti sem geta leitt til mismununar, t.d. heilsufar eða fjölskyldusaga, og til að geta lagt mat á það kann að þurfa að taka mið af kynferði í ljósi tiltekins lífeðlisfræðilegs munar á körlum og konum. Ef það er til dæmis fjölskyldusaga um brjóstakrabbamein mundi það að sjálfsögðu ekki hafa sömu áhrif á heilbrigðisáhættu karls og konu og þar af leiðandi mat á áhættu. Það voru líka nefnd önnur dæmi um krabbamein í blöðruhálskirtli, brjóstum eða legi.

Síðan er líka alveg skýrt í ákvæðunum hérna að það er ekki heimilt að (Forseti hringir.) leggja kostnað vegna meðgöngu og fæðingar eingöngu á konur. Það er verið að banna mismunun á grundvelli þess.