144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það sem snýr að neytendum og neytendavernd. Við vitum að mikið siðleysi og ábyrgðarleysi viðgekkst í bönkunum síðustu missirin fyrir hrun, því miður. Ég ætla ekki að yfirfæra það á alla starfsmenn en hluta þeirra, því miður. Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvort hann telji að bankarnir þurfi að lúta siðferðisreglum, hvort það þurfi ekki að liggja fyrir alveg jafnt og að regluverk og eftirlit sé hert, eins og verið er að reyna að gera að hluta í þessu frumvarpi, að þá séu miklu strangari siðferðisreglur sem gildi innan bankanna, að bankarnir sjálfir þyrftu að uppfylla slíkt og eftirlit væri með því að slíkt yrði haft í heiðri.

Hv. þingmaður kom inn á kaupaukana og að þá yrði að vera eitthvert gagnsætt ferli sem sýndi fram á fyrir hvað væri verið að veita kaupauka. Ætti þá ekki alveg eins að horfa til þess að kaupaukinn væri bundinn frekar neytendum og þeirra kjörum en eigendum bankans? Ætti ekki að snúa þessu við?