144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þetta. Þetta er nefnilega algjörlega mergurinn málsins í þessari umræðu. Þegar talað er um, eins og í frumvarpinu, að almennir starfsmenn geti fengið þessa bónusa, kaupauka eða breytilegu starfskjör, hvað sem menn kjósa að kalla þetta, er ekki átt við þá hópa sem hv. þingmaður nefndi. Þessi gríðarlegi launamunur innan fjármálastofnunar er áhugaverður og líka gagnrýniverður. Það má velta fyrir sér hvort það sé eðlilegt að þeir sem menn hafa beint þessum kaupaukum að séu þeir sem eigi að hvetja áfram með þeim hætti. Ég efast um það, ég stórefast um það. Ég ætla samt ekki að segja að mér finnist að fólk eigi ekki að fá að vera vel launað á Íslandi. Ég hef ekkert á móti því að fólk græði eða hagnist af því sem það er að gera, ekki neitt, en það skiptir máli að mínu mati, virðulegi forseti, hvernig því er skilað til samfélagsins og líka hvaða áhrif það hefur á samfélagið og samfélagsgerðina.

Það er svo margt í þessum kaupaukum og því kerfi sem hér er verið að fjalla um sem ég tel að muni ekki hafa jákvæð áhrif á hvort tveggja, þ.e. samfélagsgerðina og það umhverfi sem við erum að reyna að byggja upp hér eftir hrun sem og kúltúrinn sem við erum líka að reyna að byggja upp. Ég tel að þetta geti haft neikvæð áhrif þar á og sömuleiðis tel ég að þetta geti ekki síst haft neikvæð áhrif á starfsemi fjármálafyrirtækja og sent mjög röng skilaboð þegar maður er síðan í ofanálag kominn með regluverði, innra eftirlit og áhættustýringu inn í kaupauka og bónusa. Hvað er verið að segja með því? Það á bara að greiða fólki góð laun, sleppa því að hafa það undirselt einhverjum bónusum og leyfa því að vinna sína vinnu í friði fyrir þeim.