144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða Alþingis, yfirlýsing forseta og umræða um hana, skv. 61. gr. þingskapa.

[17:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem vert er að drepa á í þessari umræðu sem snýst auðvitað fyrst og fremst um stöðu þingsins og þingsályktunartillagna en minna um efni málsins sjálfs, þó að menn hafi farið svolítið vítt í þeim umræðum.

Áður en ég fer í það að rekja hina formlegu þætti málsins og þar á meðal minn skilning á hinni lagalegu stöðu er nauðsynlegt að menn hafi í huga veruleikann, hið pólitíska samhengi, því að þegar menn koma hver á fætur öðrum upp í ræðustól og tala eins og verið sé að slíta einhverjum viðræðum þá gefur það til kynna að einhverjar viðræður séu til staðar, að það sé eitthvað að gerast, að verið sé að stoppa eitthvað sem er í gangi. Er svo? Nei, svo hefur ekki verið um langt skeið. Staðan hefur ekki verið sú í meira en tvö ár að nokkuð hafi verið að hreyfast í þeim málum. Í sumum atriðum, kannski þeim sem mestu máli skipta fyrir Íslendinga, hefur ekkert verið að gerast í fjögur ár, ekki síðan 2011.(Gripið fram í.) Árið 2011 stoppuðu umræður um þau atriði í viðræðum við ESB sem allir vissu að væru mikilvægust og erfiðust, þ.e. sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Það stoppaði allt 2011. Fyrrverandi ríkisstjórn stöðvaði síðan viðræður á pólitískum forsendum í janúar 2013, það lá fyrir. Reyndar var gefin út yfirlýsing sem gaf til kynna að verið væri að hægja á um stundarsakir, en staðreyndin var sú að það var allt sett á stopp, nema hugsanlega tæknilegur samlestur embættismanna. Því var lýst yfir að engar pólitískar ákvarðanir yrðu teknar, engar viðræður mundu eiga sér stað á pólitískum forsendum milli Íslands og ESB þá. Þetta var 2013, í janúar 2013, fyrir meira en tveimur árum.

Eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum varð alveg ljóst og kom skýrt fram að ríkisstjórnin og sá meiri hluti hér á þingi sem hún styðst við ætlaði ekki að halda áfram með þær viðræður. Það kom fram í stjórnarsáttmála og kom fram í umræðum í þinginu, þetta kom alls staðar fram, og í umræðum í utanríkismálanefnd Alþingis. Þegar ríkisstjórnin leysti síðan upp samningahópa og samninganefndir haustið 2013 var alveg kristalklárt að allir þeir sem höfðu verið að vinna að þessum málum af okkar hálfu voru færðir til annarra verka, bæði embættismenn og síðan þeir sem tilnefndir voru í samninganefndir og samningahópa. Þetta var haustið 2013. Er verið að slíta einhverju núna? Það held ég ekki.

Ég held að það séu nokkrar spurningar sem varða hina formlegu stöðu málsins gagnvart þinginu sem við þurfum að ræða í þessu sambandi. Fram hefur komið að þingið gerði samþykkt sumarið 2009 sem setti ákveðið ferli af stað, það var sett af stað. Það gekk áfram það kjörtímabil þar til kom að þeim tímapunktum sem ég lýsti hér áðan, en öllum hefur verið ljóst frá því að núverandi ríkisstjórn og núverandi þingmeirihluti tók við að hún ætlaði sér ekki að fylgja þeirri ályktun eftir sem samþykkt var sumarið 2009. Það hefur ekki verið neitt leyndarmál, það hefur alveg legið fyrir. Það hefur meira að segja verið rifist heilmikið um það í þinginu og í utanríkismálanefnd Alþingis. Tekist hefur verið á um það, það hefur legið fyrir.

Þessi staða og staða þingsályktana almennt er þannig gerð að hún er af tvennum toga. Sumar þingsályktanir eru lögbundnar eða styðjast við ákvæði í stjórnarskrá, og þeim fylgir meira skuldbindingargildi fyrir ráðherra eða ríkisstjórn í sambandi við að framfylgja þeim. Aðrar eru það ekki og skuldbindingargildið, eða bindandi gildi fyrir ráðherra eða ríkisstjórn hvað slíkar þingsályktanir varðar, er auðvitað fyrst og fremst og jafnvel eingöngu pólitískt. Ef ráðherra eða ríkisstjórn framfylgir ekki ákvæðum slíkra þingsályktana, eins og á við í þessu máli, þá hefur þingið það úrræði eða þingmenn að gagnrýna ráðherrann fyrir það í þinginu, halda uppi þannig málefnalegri gagnrýni eða aðhaldi. Og þingmenn hafa það úrslitaráð, ef þeir eru ósáttir við málsmeðferð ráðherra að þessu leyti eða athafnaleysi, að bera fram vantraust. Það er nákvæmlega í því sem þingræðisreglan kristallast og það er þannig sem þingræðisreglan kemur að þessu máli, ekki að öðru leyti. Þetta er kjarni málsins að þessu leyti.

Varðandi aðra þætti málsins fáum við vonandi tækifæri til að ræða nánar á morgun, en ég vildi þó segja það varðandi samráð eða meint samráðsleysi við utanríkismálanefnd Alþingis að ég ítreka það sem ég hef sagt opinberlega um það efni að ég tel ekki að hér hafi verið á ferðinni slík meiri háttar stefnubreyting eða ný stefna (Forseti hringir.) af hálfu ríkisstjórnarinnar að það hefði krafist samráðs við utanríkismálanefnd sérstaklega. (Forseti hringir.) En við fáum tækifæri til að ræða þau mál væntanlega í sérstakri umræðu eða skýrslu eftir hádegi á morgun.