144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafna því að þetta sé losaraleg túlkun á þingræðisreglunni vegna þess að þetta er akkúrat kjarni þingræðisreglunnar. Kjarni þingræðisins birtist í þessu.

Auðvitað yfirfæra menn þingbundna stjórn og þingræðishugmyndina á miklu fleiri svið, en ef búið er að greina kjarnann í þingræðisreglunni þá er það þetta sem eftir stendur. Það er þetta sem skilur á milli hvort land er þingræðisland eða ekki, þ.e. hvort ráðherra þarf að styðjast við meiri hluta eða að minnsta kosti hlutleysi þingsins til að sitja áfram. Það er kjarninn í því. En menn geta auðvitað hengt fleira á það í bæði pólitískri og fræðilegri umræðu.

Hins vegar hvað varðar stöðuna samanborið við aðra þjóðréttarsamninga, krafan um aðkomu þingsins í formi þingsályktunar miðast alltaf við staðfestingu eða aðild, þ.e. að það er á þeim punkti þar sem kemur að því að taka skuldbindandi ákvörðun um aðild eða fullgildingu samnings sem krafan er um þingsályktunartillögu, ekki um annað sem gerist á leiðinni eða ferlið.

Þegar farið er til dæmis í samningaviðræður við einhverja, hvort sem er um viðskipti eða aðra hluti, þá er ekki stjórnskipuleg krafa um að það að hefja vegferðina sé ákveðið með þingsályktunartillögu. Þetta snýst um endapunktinn, þetta snýst um ákvörðunina í lokin sem hefur þá eitthvert skuldbindingargildi í för með sér. Það sem felst í bréfi utanríkisráðherra er með engum hætti sambærilegt við það.