144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

störf þingsins.

[15:43]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar frá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, mér er mjög ljúft að svara þeim. Ég vona að ég komist yfir þær allar og muni þær.

Þannig er mál með vexti að ég er ánægð með störf hæstv. utanríkisráðherra. Mér finnst hann vera árvökull í starfi og bregðast rétt og vel við eins og til dæmis í Úkraínumálinu og jafnréttismálum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og ég hef ekkert legið á þeirri skoðun minni við hæstv. ráðherra.

En hvað þetta mál varðar langar mig að horfa á það í stærra samhengi. Ástæða er til að huga að samráði ríkisstjórnar og ráðherra við utanríkismálanefnd og reglunum sem um það gilda. Mér finnst ekki nógu mikið samráð haft við nefndina. Það á líka við um síðustu ríkisstjórn og örugglega líka þegar horft er lengra til baka. Oft hefur verið farið af stað með mál án þess að samráð hafi verið haft við utanríkismálanefnd og mér finnst að nefndin eigi að hafa stærra hlutverk en raun ber vitni. Miðað við þau fordæmi sem við höfum hér finnst mér ekki að utanríkisráðherra hafi farið út fyrir umboð sitt í þessu máli en ég tel að fram þyrfti að fara endurskoðun og ný stefnumörkun til að skýra betur þær reglur sem gilda um hlutverk utanríkismálanefndar Alþingis í því skyni að efla nefndina.

Hvað varðar spurningarnar sem þú beindir til mín beint þá spurðir þú að því hvenær þingmönnum (Gripið fram í.) — já, og viðbrögðin voru almennt þau, eins og þú orðaðir það, að þetta mál væri innan ramma þess sem við mátti líta og engar sérstakar athugasemdir gerðar við það. En aðalatriðið í máli mínu er kannski að ég vil láta líta á þessi mál í stærra samhengi. Það er sá punktur sem mig langar helst að koma á framfæri hér við þingmenn.