144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

innheimta útboðsgjalds vegna tollkvóta.

[11:00]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í ljósi nýlegs dóms sem féll í vikunni um að ríkinu sé ekki heimilt að innheimta útboðsgjald þegar tollkvótar eru boðnir út langar mig að eiga orðastað við hæstv. landbúnaðarráðherra. Þessi útboð hafa verið mjög umdeild og gagnrýnd og við hæstv. ráðherra ræddum þetta í febrúar eftir að skýrsla um tollamál kom út. Þá sagði ráðherra að frá hans bæjardyrum séð væri alveg sjálfsagt mál að endurskoða fyrirkomulagið. Hann vísaði þó til þess að hagsmunaaðilar hefðu ekki getað komið sér saman um hvernig ætti að fara að þessu og skilaboðin frá þeim væru óskýr. Mér fannst þetta svolítið eins og ráðherrann væri að varpa frá sér ábyrgð í málinu. Nú liggur fyrir að þetta er ólöglegt. Það má ekki, að minnsta kosti er það niðurstaða héraðsdóms, bjóða út þessa tollkvóta og ríkið má ekki hagnast á þeim. Skil ég ekki rétt að samkvæmt búvörulögum er annaðhvort þessi leið farin, sem er ólögleg, eða þá að varpa hlutkesti? Það er sú leið sem ég veit að hagsmunaaðilar hafa talað fyrir. Liggur þá ekki nokkuð ljóst fyrir núna að héðan í frá verður varpað hlutkesti eða á virkilega að fara með þetta mál fyrir Hæstarétt? Væri það alveg hræðilegt ef neytendur mundu kannski njóta þess í lægra vöruverði af því að það var nú verið að tala um að ríkisstjórnin hefði hag heimilanna að leiðarljósi?

Mig langar að vita hvaða augum hæstv. ráðherra lítur þennan dóm og hvort þetta sé ekki í rauninni útkljáð mál og þurfi ekkert að vísa til þess að hagsmunaaðilar geti ekki komið sér saman um hlutina.