144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[12:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Öll viðleitni vestrænna ríkja gagnvart Rússum í sambandi við atburðina í Úkraínu hefur hafist á því að samningamenn í jakkafötum eru sendir til að ræða hlutina. Það er enginn vafi á því að slíkar lausnir eru auðvitað miklu affarasælli og þess vegna hefur þrátt fyrir allt verið friðsamlegra í Evrópu nú frá lokum síðari heimsstyrjaldar en á nokkru öðru tímabili mannkynssögunnar.

En stundum er staðan einfaldlega slík að friðurinn þarf að styðjast við vopn og þar greinir okkur hv. þingmann kannski á. En varðandi meinta útþenslu NATO til austurs er rétt að hafa í huga að NATO hefur tekið við nýjum aðildarríkjum í Mið- og Austur-Evrópu sem sóst hafa mjög eindregið eftir því að komast þar inn. Það eru ríki, hvort sem um er að ræða Eystrasaltsríkin, Pólland, Rúmeníu eða önnur lönd sem eru þarna á jaðrinum, þau hafa sóst eindregið eftir því að komast inn og hafa í mörgum tilvikum verið afar óþolinmóð að fá inngöngu í NATO. Ekki hefur verið um það að ræða að NATO hafi lagt kalda krumlu sína yfir þessi lönd og kippt þeim til sín heldur hefur það einfaldlega verið þannig að þau hafa talið öryggishagsmunum sínum best komið með því að eiga skjól í því bandalagi sem NATO er. Lönd eru í þeirri stöðu í dag að óska eftir inngöngu í NATO vegna þess að þau telja sér ógnað. Ég nefni Georgíu sem dæmi, sem fyrir fáeinum árum þurfti að þola það að rússneskir skriðdrekar völtuðu yfir hluta landsins og landamæragirðingar voru reistar þar sem (Forseti hringir.) áður var mitt landsvæði, getum sagt. NATO hefur ekki því verið að sækjast (Forseti hringir.) eftir nýjum aðildarríkjum með virkum hætti heldur hefur það tekið (Forseti hringir.) … sem hafa óskað eftir því að komast inn á grundvelli lýðræðislegra kosninga.