144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

Norræna ráðherranefndin 2014.

611. mál
[19:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tala hér eiginlega sem fulltrúi Kalmarsambandsins, ég lít alltaf aftur í aldir með nokkrum söknuði til þess. En ég verð þó að segja, af því að hv. þingmaður talar um tilviljanir í sögunni, að ég hef þá kenningu að það hafi nánast verið tilviljun hvorum megin Ísland lenti á sínum tíma, ætla svo ekki að rekja allar þær afleiðingar, en um það eru flestir mér ósammála.

Ég ætla ekki að ræða þetta frekar að því er varðar skandínavismann gamla, ég er sammála hv. þingmanni að þessi hugmynd er meira en einnar messu virði að skoða. Ég tel að því niðurnjörvaðra og þéttara sem samstarf Norðurlandanna er því sterkari eru þau. Og af því að hv. þingmaður minntist á sameiginlegan vin okkar, Jonas Gahr Störe, tilvonandi forsætisráðherra Noregs, þá er það alveg rétt að við hefðum sameiginlega mjög mikið efnahagslegt vald og þunga og það mundi skipta miklu máli og jafnvel fyrir jafnvægi og frið í Norður-Evrópu að við kæmum fram með sterkara móti sameiginlega. Ég vil ekki ganga lengra.

Hitt, þegar hv. þingmaður sem er búinn að þekkja mig flestum lengur í þessum sölum gerir mér upp trú á Evrópusambandið, ja, þá detta mér allar lýs steindauðar úr höfði. Ég er eins og hv. þingmaður, ég er bara praktískur stjórnmálamaður. Ég lít einungis á Evrópusambandið sem tæki til að koma Íslandi inn í umhverfi stöðugleika. Ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon telur sig hafa jafn góða eða betri lausn á því, þá væri ég alveg til í að eyða með honum kvöldstund til að rökræða það. Þó ekki í kvöld.