144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemd við það að tillögu sem formenn fjögurra stjórnarandstöðuflokka, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata, sem hefur verið lögð fram og dreift á þinginu, um að efna skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsmálið, megi ekki sjá á dagskrá fundarins í dag. Það hlýtur að vekja spurningu um hvað tefji þegar þingmenn fjögurra flokka af sex hér á þingi, formenn þessara flokka, leggja fram slíka tillögu. Af hverju fæst hún ekki sett á dagskrá til umræðu? Er þetta enn ein tilraunin til að halda þinginu frá umræðu um þau mál sem hafa verið í umræðu alls staðar annars staðar, liggur við, en í þinginu að undanförnu? Ég spyr mig og ég hlýt að gera kröfu um að þessi tillaga verði sett á dagskrá svo fljótt sem auðið er.