144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sé tilbúinn til þess að hafa ótakmarkaðan ræðutíma um það mál sem hér var nefnt, en það er þá hins vegar í hrópandi mótsögn við það að þessi forustumaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins skuli ekki þora að taka málið á dagskrá í dag og heldur ekki á morgun og heldur ekki á fimmtudaginn. Ég held að ef á að vera ótakmarkaður ræðutími þá hljótum við að taka málið strax á dagskrá nema stjórnarflokkarnir þori ekki. En ég kom hingað upp aðallega til að fagna ábendingu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar. Ég held að okkur öllum hafi orðið nokkuð illa við að heyra af þeirri sendingu sem þingið fékk frá Læknafélagi Íslands. Við hljótum öll að leggja ríkulega við hlustir þegar það lætur frá sér fara álit eins og það sem nú hefur borist. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta mál hefur auðvitað algjörlega verið vanreifað í nefndinni þegar það var þar afgreitt út (Forseti hringir.) … Ég held að ástæða sé til þess að (Forseti hringir.) nefndin kalli málið aftur inn áður en það (Forseti hringir.) kemur til 2. umr. og fari yfir þetta álit læknafélagsins.