144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í ljósi þeirra orða sem hér hafa fallið vil ég láta þess getið sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sem sat þann fund á mánudaginn þegar umræðan um hvenær taka ætti umrædda tillögu frá formönnum minni hlutans á Alþingi fór fram, að forseti lét þess getið að hann hefði tekið þann dag, 14. apríl, frá. Þá létu þingflokksformenn minni hlutans þess getið á sama fundi að þeir óskuðu eftir því að málið yrði tekið fyrir í dag og að tíminn í fyrri umr. yrði afmarkaður til að koma málinu áfram til nefndar og síðari umr. yrði tekin síðar. Það var ekki að beiðni forseta eða annarra að sá tímafrestur sem hér hefur verið ræddur kom upp. Ég sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins er tilbúin að ræða þessa tillögu hvenær sem er og hvar sem er og þarf hvorki meiri né minni tíma en Alþingi skammtar mér hverju sinni.