144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við höfum ákveðna tilhneigingu til þess að forðast umræðu um óþægilegar staðreyndir. Óþægilegar staðreyndir eru til dæmis þær sem blasa við okkur í umhverfismálum heimsins. Ég hef af því áhyggjur að við gerum of lítið af því hér í þinginu og í stjórnmálunum að leggja þá áherslu sem okkur ber á þann málaflokk, að ég ekki tali um þær furðulegu hugmyndir, sem heyrst hafa frá forustu Framsóknarflokksins, um að loftslagsváin í heiminum feli í sér sérstök tækifæri fyrir Íslendinga. Ég held að þær fréttir sem við fáum í dag af því að það hægi á Golfstraumnum séu sérstök skilaboð til þeirra sem lifa í þeirri skringilegu veröld að sjá tækifæri í þeirri umhverfisógn sem steðjar að veröldinni. Ég held að við þurfum líka hér að ræða þau tíðindi sem komu í janúar og hefur verið undarlega hljótt um sem eru niðurstöður vísindamanna um breytingar á jarðlögunum á Íslandi, upplýsingar um þá staðreynd að 11 milljarðar tonna léttast af Íslandi á ári hverju og að sú þróun meðal annars geti leitt til þess að þegar um miðjan næsta áratug verði eldgos tíðari en verið hefur fram að þessu. Ýmis önnur þau skilaboð sem við höfum fengið undirstrika það að við þurfum að kappkosta að vinna gegn þessari vá og gera, þó að við vegum ekki þungt í meðaltali heimsins, allt sem í okkar valdi stendur til að setja umhverfismálin í forgrunn og vera fyrirmynd öðrum þjóðum í því hvernig megi berjast gegn þessari aðsteðjandi ógn.