144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:07]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hrósið. Ég er sammála honum um að fátt er jafn glæsilegt á velli og ítalskir bóhemar og „intellectualar“ og get ég nú ekki varist þeirri hugsun að hv. þingmaður hafi ögn af því yfirbragði sjálfur, (Gripið fram í: … hárgreiðslunni.) ekki síst þegar hann tekur til máls.

Já, ég verð að taka undir með þingmanninum að valddreifing skiptir mjög miklu máli og ég held að það sé í anda, í raun og veru pólitísks tíðaranda, að dreifa valdi, að fjölga þeim heilum sem koma að ákvarðanatöku, stefnumótun, stefnumörkun. Eitt af því sem truflar mig við frumvarpið er að hér er farið í hina áttina og í raun og veru ákveðið að draga fleira inn undir eitt höfuð, höfuð þá væntanlega ráðherra, (Forseti hringir.) og ég verð að segja að sú breyting sem Ítalir gerðu á sínum málum hefur, eins lítið og ég skoðaði hana, virkað mjög vel á mig.