144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Dylgjur eru alveg ágætt íslenskt orð og ágætlega gildishlaðið og hentar ágætlega tilefninu. Greinargerðin öll sýnist mér að forminu til vera útlistun á því hvernig hlutirnir þyrftu að vera og hvaða vandi má ekki koma upp. Það má ekki koma upp að menn séu tvísaga í þróunarsamvinnumálum og hitt og þetta og menn verða að tala einum rómi og svoleiðis. Þetta er uppfullt af einhverjum (Gripið fram í.) — já, svolítið svona sjálfsögðum setningum.

Næsta spurning sem blasir við, og það er svolítið einkenni á viðbragði við dylgjum, er: Bíddu við, er þetta ekki í lagi allt saman? Er ályktunin sem á að draga af þessu öllu saman sú að þetta sé þá ekki í lagi núna? Ef talað er um að nauðsynlegt sé að utanríkispólitík Íslendinga endurspeglist í öllum aðgerðum í þróunarsamvinnumálum og svona, er þá verið að segja að hún geri það ekki? Hið athyglisverða í svari hæstv. ráðherra hér áðan við spurningu minni er að hann gat ekki nefnt nein dæmi um að einhver misbrestur væri í þessum málum hvað þetta varðar.

Ég held að menn eigi að sleppa því að leggja fram frumvarp um eitthvað svona og menn eigi í öllu falli að sleppa því að rökstyðja frumvarpið með greinargerð af þessu tagi. Það verður þá að koma einhver annar rökstuðningur. Ég skal alveg segja það hér og nú. Ég er ein eyru. Ég er alveg opinn fyrir því að heyra mjög góðan rökstuðning fyrir því að leggja eigi Þróunarsamvinnustofnun niður og setja hana inn í ráðuneytið. En það að Þróunarsamvinnustofnun sé að standa sig vel, að hún sé ekki sek um neinn þann vanda sem fjallað er um í greinargerðinni, (Forseti hringir.) það eru ekki rök.