144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta mál er náttúrlega ekki stakt og er enn ein perlan á þessu langa perlubandi vandræðalegheita ríkisstjórnarinnar. Hér er enn eina ferðina um að ræða þingmál sem er vanbúið og óskiljanlegt og við þingmenn að velta fyrir okkur hvað berist í kolli ráðherrans og hvaða hvatir liggi eiginlega að baki, sem mér finnst mjög vont. Mér finnst mjög vont þegar menn forðast beinlínis í umræðunni að svara einföldum spurningum eins og kom fram í andsvörum hv. þingmanns áðan; hvert er vandamálið í fyrsta lagi og í öðru lagi hvað liggur á? Bara þetta tvennt finnst manni nú duga til þess að staldra við, en enn eina ferðina er þetta orðið eins og fræg bíómynd, að maður stendur hér og skilur ekki neitt í neinu og utanríkisráðherrann situr á ráðherrabekknum og ekkert skýrist.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann — af því að ég er sammála því sem kom fram í orðaskiptum hv. þingmanna tveggja um að þetta er óvenjulega ríkt af dylgjum, þ.e. þessi greinargerð. Það er í raun og veru mjög alvarlegt að það skuli vera svona hlaðið dylgjum, frumvarp sem ráðherra leggur fram og dylgjur gagnvart sinni eigin stofnun (Gripið fram í: Og ekki í fyrsta skipti.) og ekki í fyrsta skipti. Þetta er ekki til þess fallið að byggja upp málefnalegan, sterkan og rökstuddan grunn undir ákvarðanir hæstv. ráðherra og síðan þingsins í kjölfarið. Mig langar því til að spyrja hv. þingmann sérstaklega að því er varðar aðkomu þingsins. Mér finnst það mjög óskýrt í frumvarpinu, í 4. gr., hvað er eiginlega átt við með þeim umbúnaði öllum. Það er sannarlega þannig að aðkoma þingsins er ekki nógu skýr eins og hún er núna. En yrði hún eitthvað skýrari ef frumvarpið verður að lögum (Forseti hringir.) að því er varðar bæði stefnumörkun og ekki síður eftirlit?