144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Í aðdraganda landsfundar Samfylkingarinnar var Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrrverandi alþingismanni, falið að leiða nefnd innan flokksins um búsetumál eldra fólks Sú nefnd skilaði skýrslu og tillögum fyrir landsfund og hafði farið þar fram mjög metnaðarfullt starf og unnið í anda þeirrar framtíðarsýnar Samfylkingarinnar að Ísland eigi að vera staður þar sem allir geta átt gott líf þegar þeir eldast án tillits til efnahags og uppruna.

Fólki á eftirlaunaaldri mun fjölga um 70% fram til ársins 2030 og því er nauðsynlegt að leggja fram áætlanir um hvernig við ætlum að tryggja öllum gott líf. Í tillögum okkar leggjum við höfuðáherslu á að fólk eigi að geta búið heima. Það þarf að setja í lög skilgreiningar um þjónustu, mismunandi þjónustu ólíkra tegunda þjónustuíbúða, sem fer stigvaxandi eftir þörfum. Þá leggjum við mjög mikla áherslu á endurhæfingu, því að með endurhæfingu er miklu auðveldara fyrir fólk að búa áfram heima og takast á við sitt daglega líf. Við viljum að heimaþjónusta verði notendastýrð og sniðin að þörfum hvers og eins, og við viljum að eldra fólk geti valið um íbúðir fyrir eldri borgara eða þjónustuíbúðir á viðráðanlegu verði til kaups, búseturéttar eða leigu og að húsnæðisbætur verði veittar tekjulágu fólki.

Svo viljum við að árlega verði gerðar kannanir á vilja fólks á aldrinum 55–75 ára til að hægt sé að gera raunhæfar áætlanir til byggingar á eignar-, leigu- og búseturéttaríbúðum. Þetta eru markmið og leiðir til þess að fólk geti búið sem lengst heima (Forseti hringir.) og átt gott líf, en jafnframt þarf að fjölga hjúkrunarrýmum um 160 næstu 15 árin og það er ekki (Forseti hringir.) ofmetið, því að nú þegar er mikill skortur á slíkum rýmum.